Allar lóðir í Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði eru uppseldar.
Nokkur svæði munu koma til úthlutunar á þróunarreitum í Hamranesi (við hlið Skarðshlíðarhverfis) og hafinn er undirbúningur skipulagsvinnu á næstu nýbyggingarsvæðum bæjarins í Áslandi 4 og 5. Framundan er mikil uppbygging á umræddum nýbyggingarsvæðum, við Hraun-vestur, á hafnarsvæðinu og víðar. Fjölbreytnin mun ráða ríkjum þegar kemur að nýjum íbúamöguleikum í Hafnarfirði á næstu misserum.
Skarðshlíðin er fjölskylduvænt íbúðahverfi í Hafnarfirði sem liggur á flata og í brekku sunnan og vestan í Ásfjalli. Við hönnun og skipulag hverfisins var áhersla lögð á heildræna sýn, heildrænar götumyndir, vistvænt skipulag, sjálfbærni, grænt yfirbragð og fjölbreytt útisvæði. Stutt er í alla þjónustu, möguleikar á að starfa í heimabyggð miklir og mikil nálægð við uppland Hafnarfjarðar og fallegar náttúruperlur.
Í Skarðshlíðarhverfi rís blönduð byggð einbýlishúsa, parhúsa, raðhúsa og lágreistra fjölbýlishúsa. Lóðir fyrir fjöleignarhús standa á flata nálægt skólanum en byggðin greinist svo upp Skarðshlíðarbrekkuna með raðhúsum og parhúsum neðst og einbýlishúsum ofar þar sem landhalli er meiri. Hverfið er til þess fallið að taka á móti öllum, hvort sem um er að ræða pör, litlar eða stórar fjölskyldur eða eldri einstaklinga sem vilja minnka við sig en samt komast í nýtt húsnæði. Hverfisskólarnir, Skarðshlíðarskóli og Skarðshlíðarleikskóli, hafa þegar tekið til starfa og það undir sama þaki. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar starfar einnig í húnsæðinu og hefur gert frá haustinu 2020.
Samgöngur milli hverfa eru nokkuð greiðar og sífellt að verða greiðari. Ný mislæg gatnamót eru komin í notkun auk þess sem tvöföldun Reykjanesbrautar lauk síðla hausts 2020. Ásvallabraut er í uppbyggingu og mun hún greiða fyrir umferð til og frá hverfinu. Við hönnun og skipulag hverfisins er áhersla lögð á heildrænar götumyndir og vistvænt skipulag og eru gönguleiðir í skóla og íþróttaaðstöðu sem er í næsta nágrenni öruggar og góðar.
Lóðir í Skarðshlíðarhverfi eru allar seldar. Umsóknarfrestur um síðustu lóðirnar rann út mánudaginn 8. febrúar 2021 kl. 12. Síðustu lóðum í Skarðshlíðarhverfi var úthlutað á fundi bæjarráðs fimmtudaginn 11. febrúar 2021.