Sannkölluð náttúruperla á frábærum stað

Skarðshlíðin er nýtt og fjölskylduvænt íbúðahverfi í Hafnarfirði sem liggur á flata og í brekku sunnan og vestan í Ásfjalli. Við hönnun og skipulag hverfisins hefur áhersla verið lögð á heildræna sýn, heildrænar götumyndir, vistvænt skipulag, sjálfbærni, grænt yfirbragð og fjölbreytt útisvæði. Stutt er í alla þjónustu, möguleikar á að starfa í heimabyggð miklir og mikil nálægð við uppland Hafnarfjarðar og fallegar náttúruperlur.

Blönduð byggð íbúðarhúsa

Í Skarðshlíðarhverfi rís blönduð byggð einbýlishúsa, parhúsa, raðhúsa og lágreistra fjölbýlishúsa. Lóðir fyrir fjöleignarhús standa á flata nálægt skólanum en byggðin greinist svo upp Skarðshlíðarbrekkuna með raðhúsum og parhúsum neðst og einbýlishúsum ofar þar sem landhalli er meiri. Hverfið er til þess fallið að taka á móti öllum, hvort sem um er að ræða pör, litlar eða stórar fjölskyldur eða eldri einstaklinga sem vilja minnka við sig en samt komast í nýtt húsnæði. Hverfisskólinn, Skarðshlíðarskóli, hefur þegar tekið til starfa og mun leikskóli taka til starfa haustið 2019.

Góðar samgöngur

Samgöngur milli hverfa eru nokkuð greiðar og sífellt að verða greiðari. Ný mislæg gatnamót eru komin í notkun og tvöföldun Reykjanesbrautar í sjónmáli auk þess sem Ásvallabraut mun greiða fyrir umferð til og frá hverfinu. Við hönnun og skipulag hverfisins er áhersla lögð á heildrænar götumyndir og vistvænt skipulag og eru gönguleiðir í skóla og íþróttaaðstöðu öruggar og góðar. Lega Hamraneslínu í gegnum hverfið hefur staðið uppbyggingu fyrir þrifum. Nú er færsla línunnar í sjónmáli og er gert ráð fyrir að framkvæmdum verði að fullu lokið í byrjun nóvember 2019. Göngu- og hjólaleiðir í skóla og íþróttaaðstöðu sem er í næsta nágrenni öruggar og góðar.